föstudagur, september 19, 2008

Tímamót



Markaðirnir voru upp í dag, allt er vænt sem er grænt. Komin tími til segi ég nú. En hmm það er spurning hvað geris á mánudaginn, líklega er bara komin tími á smá bounce uppá við. Líklegt er að þessi leiðindastaða muni halda eitthvað áfram, allavegana út næsta ár. Ojæja, life goes up and down, up and down.

Annars er ekkert að frétta.... reyndar áttum við Ingvar "10 ára" afmæli um daginn, þ.e. ef við hefðum verið saman allan tíman :p Verður maður samt ekki að halda uppá tímamótin, jú jú, en við vorum svo blönk að við höfðum það bara einfalt og kósý. Ég bjó til hálfgert listaverk þar sem að ég fór í gömul albúm og prentaði úr tölvunni helling af myndum af bestu stundunum (sem voru til á filmu) og raðaði þeim í risastóran ramma. Það er eiginlega alveg magnað að skoða þetta. Vá hvað maður hefur breyst og þroskast, vona ég. Það sem manni datt í hug að gera fyrir 10 árum síðan, myndi maður líklega ekki gera í dag. Jeminn eini.
Smá yfirlit:
Við byrjuðum saman 7. ágúst 1998. Svo vorum í leynilegu ástarsambandi árið 1999 til vor 2000, þar sem að ákveðnir aðilar í fjölskyldunni voru ekki ánægð með sambandið. Svona er það að vera elsta barnið býst ég við. Það samband lýsti sér til dæmis þannig að sumar nætur stal ég bílnum hennar mömmu þegar allir voru sofnaðir, keyrði bílinn heim til Ingvars og vaknaði svo fyrir allar aldir til þess að vera komin heim áður en nokkur vaknaði. Aldrei komst upp um þetta athæfi mitt, ótrúlegt en satt. Það sem verra var að ég var farin að skrópa í skólanum til þess að geta hitt hann vegna þess að það var svo erfitt að fá að hitta hann eftir skóla. Ég hef ávallt skammast mín óheyrilega mikið fyrir það og sé mikið eftir því að hafa ekki náð að njóta þess að kynnast Versló vinunum betur. Svo var allt þetta farið að hafa áhrif á einkunnir mínar þar sem að ég mætti syfjuð og þunglynd í skólann. Allt þetta var farið að leggjast á sálina á manni, en í dag er allt glimrandi gott. Fjölskylda mín elskar Ingvar og Ingvar elskar fjölskylduna mína. Vá hvað tímarnir hafa breyst.

Mér finnst samt eins og öll þessi reynsla hafi náð að þroska mann heil mikið, í dag legg ég mikla áherslu á að vera eins heiðarleg og hægt er. Reyna að tala aldrei illa um aðra, samt segja sína skoðun og ekki hræðast rifrildi. Ef maður sínir ekki sitt rétta andlit, þá mun það bara bíta mann í bakið seinna. Ég hafði ekki hugrekki til þess að styðja bak við samband okkar Ingvars á fyrri hluta ástarsambands okkar því að ég hélt ennþá að það sem fullorðnir segja væru lög, en þetta tók mikið á samband okkar.

Loksins þegar við náðum svo að einbeita okkur að sambandi okkar, þurftum við að læra betur á hvort annað. Við sáum að það var ekki að ganga upp árið 2003. Ég gat ekki sagt það sem ég vildi segja og fannst hræðinlega erfitt að rífast eða rökræða, þ.a.l. lokuðum við allt inni í stað þess að tjá okkur. Auðvitað gerðist margt á öllum þessum árum en lykillinn af öllum okkar vandræðum var að við ræddum ekki málin.

Í þrjú ár vorum við bestu vinir og þroskuðumst í betri einstaklinga og höfðum loks hugrekki til þess að tala saman um allt. Þegar við ákváðum að byrja aftur saman þá ákváðum við að í þetta sinn myndum við tala saman. Hvað sem á gengi þá myndum við tjá það sem við værum að hugsa. Það virkar. Þó svo að við höfum ólíkar skoðanir á ýmsu þá vitum við þó allaveganna skoðanir hvors annars, í stað þess að ætlast til þess að við vitum hugsanir hvors annars.

Vá, þetta var erfitt að skrifa en ég held að það hafi verið komin tími til að segja þetta allt saman. Lífið er ævintýri og því ekki að segja frá því, gangi ykkur vel í ykkar ævintýrum.

sunnudagur, ágúst 24, 2008

Fyrsta maraþonið




Það var stuð í Reykjarvíkurmaraþoni Glitnis í gær. Við hlupum/löbbuðum í skemmtiskokkinu 3 km, reyndar fannst mér það eiginlega of stutt. Kannski maður velji bara 10 km á næsta ári. Heiðu Björg fannst þetta voðalega spennandi, Ella vinkona kom einnig með sína 3 mánaða dömu hana Sigrúnu Fríðu en hún svaf allan tíman í vagninum sínum, voðalega sæl.

Hér koma nokkrar myndir af hlaupagörpunum.

miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Þriðji í leikskóla

Gagkar, gagkar er vinsælasta orðið núna eða réttara sagt "Krakkar".

Á mánudaginn var fyrsti dagurinn í aðlögun í leikskólanum Völvuborg. Heiða Björg er einstaklega sátt við það, orðin hundleið á fjölskyldunni og vill fara að leika við "gagkar". Þessi aðlögun er eins og draumur, henni virðist vera alveg sama þó að við skreppum frá eða "felum okkur" fyrir henni. Hún er svo ánægð að fá að leika og vera úti með krökkunum. Vonandi mun þetta áfram ganga svona vel eða eins og fóstrurnar sögðu "Hún er algjör draumur, vildum óska að aðlögunin gengi alltaf svona vel".

Svo er það Reykjarvíkurmaraþon Glitnis á laugardaginn. Ætla ekki allir að mæta :)ef ekki heitið þá á mig og Heiðu Björg. Við ætlum sko að vera með allaveganna 3 km.

fimmtudagur, ágúst 14, 2008

Í sumar og sól

Nóg hefur verið að gera í sumar og hefur Heiða Björg verið í sumarfríi núna í 6 vikur. Á mánudaginn byrjar hún í fyrsta skipti í leiksskólanum Völvuborg. Við erum búin að fara einu sinni að skoða og líst ágætlega á. Einn leikskólakennari sá meira segja um Ingvar þegar hann var í leikskóla, þannig að það voru skemmtilegir endurfundir. Í sumar höfum við Heiða Björg verið að kíkja á leikvöllin hjá leikskólanum svona til að venjast umhverfinu og sýnist mér að henni líki vel staðurinn.

En hér koma nokkrar myndir af gleðinni í sumarfríinu. Við vorum mest allan tíman uppí sumarbústað hjá ömmu því að þar gat skvísan hlupið inn og út án þess að við þyrftum að hafa miklar áhyggjur af henni. Á hverju kvöldi sofnaði hún svo hinum ljúfa þreytusvefni.









París í sumar

Í lok júní bauð mamma mér og Heiðu Björg, litla bróður og ömmu til Parísar. Það var algjört æði, þó að okkur hafi dáldið blöskrað verðlagið. Hér koma nokkrar myndir af prinsessunni úr ferðalaginu. Hún gjörsamlega heillaði alla Frakkana upp úr skónum og sífellt var verið að taka myndir af henni.

Eitt skiptið sátum við í langri biðröð að bíða eftir strætóbátnum og á meðan spilaði gítarleikari ýmis flott rokklög og betlaði. Heiða var svo ánægð að hún dansaði og dansaði og dansaði við lögin og allir brostu sínu breiðasta. Já hún er sko framtíðar þáttakandi í So you think you can dance.




mánudagur, maí 12, 2008

Minningargreinin mín um afa

Afi var gullið okkar. Alltaf til staðar og alltaf svo viljugur til alls, allt til seinasta dags. Án hans hefði líf okkar verið mun fátækara. Afi var einn af yndislegustu manneskjum sem ég veit um, hann var elskaður af öllum jafnt dýrum sem og okkur börnunum. Það fengu sko allir allt það besta hjá ömmu og afa, jafnvel kisurnar lifðu á rjóma og fisk. Enginn furða að það var alltaf best að vera hjá afa og ömmu. Hjá afa og ömmu átti ég skjól, það var ávallt mitt annað heimili. Ég er svo þakklát fyrir það.

Ferðalögin okkar saman voru einnig ógleymanleg. Við munum til dæmis öll eftir skemmtilegu ferðunum saman í fellihýsinu/hjólhýsinu og yndislegu tímunum saman uppí sumarbústað. Bestu stundir lífsins. Í einni ferðinni um landið man ég eftir því að við afi ætluðum að fara að veiða eins og svo oft var vaninn en kríur voru búnar að yfirtaka svæðið svo að þær steyptu sér niður á okkur þegar við löbbuðum út úr fellihýsinu. Ég var svo hrædd að ég ætlaði ekki að fara að veiða en afi hafði ráð undir rifi hverju og löbbuðum við af stað með pottana hennar ömmu á höfðinu og fórum að veiða. Kríurnar áttu sko ekki séns og voru því engar holur höggnar í okkar höfuð. Afi var svo sniðugur.

Jólin voru svo einnig besti tími ársins, þá lýsti afi upp heiminn með jólaljósunum sínum. Aldrei taldi hann jólaseríur vera ónýtar, það væri þá bara hægt að sameina þær eða svissa perum. Pabbi var nú alltaf dáldið hræddur um afa við þennan leik og ráðlagði mér í gríni að vera ekkert að hleypa afa í rafmagnið.

Ingvar og afi áttu ofboðslega vel saman, það voru ófáar stundirnar sem þeir eyddu í bílskúrnum, geymslunni, á nirfilsstöðum (veiðimannakofanum eins og þeir nefndu staðinn) og við að veiða. Þeir voru alltaf á fullu og skemmtu sér konunglega. Það er nokkuð víst að afa verður sárt saknað. Ingvar hefur misst félaga sinn.
Mér þykir svo sárt að hugsa til þess að Heiða Björg muni ekki kynnast afa sínum betur, en við munum segja sögur af afa svo að afi verði ávallt í hjarta og huga hennar jafnt sem okkar.

Seinasti dagur afa á þessari jörðu var afskaplega erfiður, við komum öll saman og kvöddum þig tregatárum. Við vildum ekki missa þig, okkur hlakkaði svo til að eiga áfram góðar stundir saman en nokkuð er víst að ekkert er sjálfsagt í þessum heimi og þakka ég því fyrir hvern þann dag sem við áttum saman. Þegar ég sat hjá þér þennan dag, þá sá ég að þú varst farin. Ég leitaði örvæntingarfull eftir merki um að hvar sem þú værir þá liði þér vel. Lagði ég því Biblíuna í lófa mína og ákvað að þreifa meðfram blaðsíðunum að þeirri síðu sem örlögin leiddu mig. Á síðunni blasti við mér orð, en það orð var „Ættarhöfðingi“ og það var afi.

Ástarkveðjur að eilífu,
Sigurást Heiða, Ingvar og Heiða Björg

laugardagur, maí 10, 2008